Dagskrá afmælisársins mótuð af landsmönnum
Kallað er eftir frumkvæði og virkri þátttöku landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins og lögð er áhersla á að ná til sem flestra landsmanna. Opnað hefur verið fyrir tillögur að verkefnum á dagskrá afmælisársins og skal þeim skilað rafrænt gegnum vefsíðuna www.fullveldi1918.is fyrir kl 16, 22. október nk.


Verkefnaáherslur
Lögð er áhersla á fjölbreytt og vönduð verkefni með nýstárlega nálgun. Litið verður til verkefna sem:
 minnast aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands og/eða hafa skírskotun til þess þáttar í sögu þjóðarinnar.
 fjalla um og/eða byggja á fullveldishugtakinu, hvort heldur er í fortíð, nútíð eða framtíð.
 hvetja til samstarfs.
o Samstarf getur verið þvert á greinar, milli landsvæða, aldurshópa, þjóðfélagshópa, landa, ólíkra stofnana og félagasamtaka.
 höfða til barna og ungs fólks og eru til þess fallin að auka þekkingu og innsýn þeirra í söguna, samfélagið og fullveldishugtakið.
 höfða til fjölbreytts hóps fólks og hvetja til almennrar þátttöku.
 draga fram áhugaverða samlíkingu milli fortíðar og nútíðar í sögu lands og þjóðar, s.s. í menntun, heilbrigðismálum, náttúru, umhverfismálum, vísindum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og í daglegu lífi fólks.
 hafa nýstárlega nálgun á þjóðararfinn og/eða á viðfangsefnið.
 eru til þess fallin að vekja athygli á sérstöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Ofangreindar verkefnaáherslur útiloka ekki verkefni af öðrum toga hafi þau skírskotun til tilefnisins.
Nefnd á vegum Alþingis
Haustið 2016 kaus Alþingi nefnd með fulltrúum allra þingflokka er skyldi undirbúa hátíðahöld árið
2018. Í þingsályktun Alþingis er kveðið nánar á um verkefni nefndarinnar:
1. láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra,
svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918;
2. stofna til sýningar í samvinnu við Árnastofnun á helstu handritum safnsins til að minna á
grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinnar;
3. stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir
Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi;
4. hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi
með sambandslögunum árið 1918.


Nánari upplýsingar veita Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri (862 2277),
ragnheidurjona@fullveldi1918.is, og Einar K. Guðfinnsson, formaður (892 7628), ekg@ekg.is.


Fylgiskjal: Þingsályktun um hvernig minnast skuli aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

Var efnið á síðunni hjálplegt?