Undirritaður hefur verið samningur um að frá og með 1. september 2019 muni Blönduósbær taka yfir götulýsingarkerfi sveitarfélagsins, og allt sem því tilheyrir.

RARIK hefur í áratugi sett upp og rekið götulýsingarkerfi vítt og breitt um landið. Ákveðin kaflaskil urðu þegar raförkulög nr. 65 frá árinu 2003 tóku gildi. Samkvæmt þeim þá fellur götulýsing ekki undir einkaleyfisstarfsemi dreifiveitufyrirtækja. 

 Fyrr á árinu þá ritaði RARIK sveitarfélögum bréf, þar sem boðið var uppá viðræður um yfirtöku á götulýsingarkerfinu, ásamt því að leggja fram gögn um stöðuna á því.

Eftir kynningar á málinu, af hálfu RARIK, í Reykjavík og á Blönduósi  og vandlega skoðun heimamanna, þá var samningur um afhendinguna samþykktur á 144. fundi byggðaráðs, fimmtudaginn 22. ágúst s.l., og sveitarstjóra falið að undirrita hann.  

Áður hafði RARIK afhent nokkrum sveitarfélögum götulýsingarkerfi með sama hætti. 

 Götulýsingarkerfi Blönduósbæjar samanstendur af 374 götuljósastaurum með tilheyrandi ljósbúnaði ásamt strengjalögn fyrir götulýsingu og tilheyrandi götuskápum með varnar- og stjórnbúnaði. Raforkumæling og stýring fyrir götuljósin er í 8 dreifistöðvum RARIK og 1 í stýriskápum.   Sérstakur afhendingarfundur mun verða haldinn með hlutaðeigandi aðilum, um næstu mánaðarmót, þar sem gengið verður frá afhendingunni, en RARIK lýsir yfir vilja sínum um að aðstoða sveitarfélagið, fyrst um sinn, samkvæmt nánara samkomulagi.

Var efnið á síðunni hjálplegt?