Vegagerðin auglýsir hér með drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Refasveit og um Laxá í sveitarfélögunum Blönduósbæ og Skagabyggð, Austur-Húnavatnssýslu.

Til stendur að byggja nýjan 8,5 km langan stofnveg frá Hringvegi austan Blönduóss að Þverárfjallsvegi (744), skammt sunnan við brú á Laxá. Frá nýjum vegi verður byggður um 3,3 km langur vegur til norðurs, með nýrri brú yfir Laxá, og inn á núverandi Skagastrandarveg norðan við Höskuldsstaði í Skagabyggð. Heildarlengd vega og brúar er um 11,8 km.

Að framkvæmdum loknum verður nýi 8,5 km langi stofnvegurinn hluti Þverárfjallsvegar sem fær nýtt vegnúmer, þ.e.a.s. Þverárfjallsvegur (73). Nýi 3,3 km langi vegurinn, með nýrri brú á Laxá, verður að framkvæmdum loknum hluti Skagastrandarvegar (74).

Verkið heitir: Þverárfjallsvegur (73) í Refasveit og Skagastrandarvegur (74) um Laxá.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur á Norðvesturlandi, auka umferðaröryggi vegfarenda og íbúa og tryggja greiðari samgöngur á svæðinu.

Drög að tillögu að matsáætlun eru kynnt á heimasíðu Vegagerðarinnar, http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsaetlun/ samkvæmt reglugerð 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum.

Almenningur getur gert athugasemdir við áætlunina og er athugasemdafrestur til 5. mars 2018.

Athugasemdir skal senda með tölvupósti til soley.jonasdottir@vegagerdin.is eða til Vegagerðarinnar, Miðhúsavegi 1, 600 Akureyri.

Var efnið á síðunni hjálplegt?