Þar sem útbreiðsla COVID-19 veirunnar getur haft mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf og heimili, með fyrirsjáanlegu tekjutapi á næstu mánuðum, þá vill Sveitarstjórn Blönduósbæjar koma til móts við þá sem þess óska, með eftirfarandi fyrstu aðgerðum til þess að veita viðspyrnu:

1. Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkir eftirfarandi breytingar á gjalddögum í samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda árið 2020. Mögulegt er að óska eftir því að gjalddagar sem áttu að vera 1. apríl, 1. maí og 1. júní 2020, frestist um allt að 7 mánuði, enda verði óskað eftir því með tölvupósti á sérstöku eyðublaði á blonduos@blonduos.is

2. Þar sem COVID-19 hefur valdið röskun á þjónustu stofnana sveitarfélagsins, svo sem hjá leikskóla, grunnskóla, skóladagheimili og mötuneyti, og fleira þess háttar, þá er sveitarstjóra falið að endurskoða innheimtu með tilliti til notkunar og/eða skerðingar þjónustunnar að lágmarki 5 virka daga samfellt.

3. Þar sem Íþróttamiðstöð Blönduósbæjar mun verða lokuð í óákveðinn tíma, þá er eðlilegt að tímalengd áskrifta að aðgangskortum sem nú er í gildi framlengist sem lokun nemur.

4. Sveitarstjórn Blönduósbæjar felur sveitarstjóra og skrifstofu- og fjármálastjóra heimild til fullnaðarafgreiðslu á ofangreindum málum.

Sveitarstjórn Blönduósbæjar mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til þess að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnar og annara sveitarfélaga ásamt því að fylgja leiðbeiningum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Eyðublað má finna undir Þjónustu hér á vefnum og einnig með að smella hér

Var efnið á síðunni hjálplegt?