Kæru íbúar                                                                            

Nú er aðeins vika þangað til að byrjað verður að aflétta hluta af þeim takmörkunum sem hert samkomubann hefur gilt um, en mánudaginn 4. maí verður það gert samkvæmt auglýsingu. Þó það sé nú formlega komið sumar þá er mikilvægt að slaka ekki á og fylgja í einu og öllu leiðbeiningum stjórnvalda. Það er gott að finna fyrir þeirri samstöðu sem ríkir í okkar samfélagi og þegar þetta er ritað hefur ekki komið upp staðfest smit í A-Hún. Frá og með næstu viku munum við ekki setja inn vikulegar upplýsingar á heimasíðuna en upplýsa um allar breytingar.

Starfið í Leikskólanum Barnabæ, mun frá og með 4. maí, verða að mestu eins og áður var en áhersla verður áfram á aukið hreinlæti og þrif, og minni umgangni um skólann og á milli deilda.  Blönduskóli mun áfram verða með breytta starfsemi og verður það kynnt nánar í þessari viku. Gefnar verða út tilkynningar og leiðbeiningar beint frá skólunum þegar allar breytingar verða.

Skrifstofa sveitarfélagsins er ennþá lokuð fyrir almennri afgreiðslu, en leitast er við að leiðbeina og svara öllum erindum í gegnum síma, eða með tölvupósti. Sjá á www.blonduos.is

Á meðan þetta ástand varir þurfum við öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum frekari útbreiðslu á COVID-19. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim íbúum sem eru veikir fyrir og leggja okkur fram um að aðstoða þá sem þess þurfa, bæði þeim sem eldri eru og búa einir, en eins þeim íbúum sem eru af erlendum uppruna.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum íbúum Blönduósbæjar fyrir samheldnina og sérstaklega þeim sem eru í framlínunni, hjá almannavörnum, í heilbrigðisþjónustu og öðrum.  Við munum fara í gegnum þetta saman, fylgja leiðbeiningum og fyrirmælum stjórnvalda og höfum í huga að þetta er tímabundið ástand þar sem samstaða okkar allra er mikilvæg. 

Með góðum kveðjum.

Valdimar O Hermannsson,

Sveitarstjóri

 

Upplýsingar útgáfa 7

Var efnið á síðunni hjálplegt?