Fjara á Norðurlandi vestra
Fjara á Norðurlandi vestra

Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu á síðustu árum er snýr að plastmengun. Á laugardaginn nk. verða haldnar fimm lista- og vísindasmiðjur á vegum Textílmiðstöðvarinnar og samstarfsaðila þar sem allir áhugasamir um verkefnið eru hvattir til að mæta í eina af fimm fjörum á Norðurlandi vestra, safna saman rusli og reisa vörður undir leiðsögn nemenda frá Listaháskóli Íslands og listamanna sem dvelja á svæðinu. Fjörurnar eru: fjörur Borgar- og Garðssands við Sauðárkrók, Sandasand í botni Miðfjarðar og í fjörur við Selvíkurtanga við bæina Hafnir og Víkur.

Markmiðið með verkefninu er að auka þekkingu almennings á umhverfismálum og mengun hafsins. Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi stýrir verkefninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd en tveir  vísindamenn hjá Biopol eru búnir að þræða norðurströndina til að skoða fjörur þar sem rusl berst að landi. Þeir hafa einnig tekið saman upplýsingar um plastmengun í hafinu sem má nálgast á vef Textílmiðstöðvarinnar.

 Byrjað verður á því kl. 10 að safna saman rusli og í framhaldinu verða reistar vörður undir leiðsögn listamanna frá Listaháskóla Íslands, Nes listamiðstöð á Skagaströnd og Textíllistamiðstöðinni á Blönduósi. Reiknað er með því að dagskránni verði lokið í síðasta lagi kl. 16.

 Í verkefninu felst að vísindin og listirnar leggja saman til að skapa vettvang til að vekja athygli á þeirri ógn sem mengun hafsins er lífi á jörðinni. Þátttakendur á hverjum stað ákveða undir leiðsögn þess listafólks sem leiðir þá vinnu hvernig þeir skilgreina sína vörðu og með hvaða hætti hún varpar ljósi á eða leggur til lausn/lausnir á mengun hafsins.

 Stofnaður hefur verið viðburður á Facebook. Mælt er með því að þátttakendur komi með sína eigin kaffibolla til að minnka ruslið, en boðið verður upp á kaffi og kakó á staðnum! Einnig væri gott að taka vatn og garðhanska með sér.

 Verkefnið verður í framhaldinu kynnt sem hluti af opnun Norðurstrandarleiðarinnar þann 8. júní næstkomandi á „Degi hafsins“ en styrkur fékkst til verkefnsins bæði frá Uppbyggingarsjóði og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Var efnið á síðunni hjálplegt?