Sveitarfélög í Austur Húnavatnssýslu hafa ákveðið að taka þátt í verkefninu Arctic Coast Way, en byggðarsamlag um menningar- og atvinnumál samþykkti þáttöku í verkefni í vikunni.

Sveitarfélögin sem taka þátt í verkefni eru því Akureyrarbær, Blönduósbær, Dalvíkurbyggð,  Fjallabyggð, Húnavatnshreppur, Húnaþing Vestra, Skagabyggð, Skagafjörður, Skagaströnd, ásamt Norðurhjara sem eru ferðþjónustusamtök á svæðinu frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð. Verkefnið er fjármagnað með framlagi frá þátttakendum að fjárhæð 500 á hvern íbúa hvers sveitarfélags.

Í febrúarmánuði voru kynningarfundir haldnir á verkefninu á Skagaströnd og Hvammstanga og í kjölfarið var óskað eftir því við sveitarfélög í Austur Húnavatnssýslu og Húnaþingi vestra tækju þátt í verkefninu.

Vegurinn liggur að mestu meðfram strandlengju Norðurlands og er tilgangurinn að þróa nýtt aðdráttarafl fyrir norðurhluta Íslands. Verkefnið hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan en Markaðsstofa Norðurlands hefur haldið utan um það síðan í september í fyrra. Sérstakur starfshópur með fulltrúum úr landshlutanum hefur unnið að verkefninu undanfarið en markmiðið er að skapa tækifæri til markaðssetningar og fjölga ferðamönnum á þessari leið.

Var efnið á síðunni hjálplegt?