Blönduós. Gamli bærinn og Klifamýri - Verndarsvæði í byggð

Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkti á fundi 13. febrúar 2018 að leggja fram tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan þéttbýlisins á Blönduósi, sbr. 4. gr. laga um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015. Svæðið sem um ræðir er 17,5 ha landspilda innan við ós Blöndu, sem tekur annars vegar til gamla bæjarkjarnans á Blönduósi og hins vegar til aðliggjandi svæðis sjálfsþurftarbyggðar á árbakkanum og í Klifamýri. Að vestanverðu miðast útmörk svæðisins við fjörumál og fylgja síðan sandinum við árósinn og árbakkanum að norðanverðu allt austur að vestari lóðarmörkum fjölbýlishússins við Hnjúkabyggð nr. 27. Þar sveigja útmörkin til suðurs að götunni Hnjúkabyggð og liggja með henni að mótum Þingbrautar, sem þau fylgja síðan í suður- og vesturátt að rótum malarhjallans, þ.e. Miðholts- og Neðribrekku, er marka útmörk verndarsvæðisins að sunnanverðu allt til sjávar.

Tillagan fjallar um verndargildi byggðarinnar á umræddu svæði, sem spannar rösk 140 ár. Sögu svæðisins má í grófum dráttum má skipta í tvö ámóta löng tímabil, þ.e. annars vegar tíma uppbyggingar á árabilinu 1876-1950 og hins vegar kyrrstöðu- og hnignunarskeið, sem þá tók við og enn varir. Þrátt fyrir stöðnun og áföll á liðnum áratugum hefur svæðið haldið sínum sjarma. Andrúmsloft fyrri tíma grúfir yfir og skapar afar sérstaka og eftirsóknarverða stemmningu á svæðinu. Tilfinningin um sjálfbæra bæjarkjarnann sem iðaði af mannlífi og naut stuðnings af sveitinni innan við og sjónum fyrir utan. Áningarstaðarins þar sem ferðafólk gat hvílt lúin bein. Hér eru einstök verðmæti sem mikilvægt er að halda vel utan um og byggja upp af fagmennsku og virðingu. Með tillögu um verndarsvæði í byggð verður saga, menning og varðveislugildi svæðisins fest í sessi.

Til grundvallar tillögunni er Aðalskipulag Blönduósbæjar 2010 - 2030 og fyrri tillögur að aðalskipulagi, Húsakönnun á Blönduósi 2015, Fornleifaskráning Blönduósbæjar frá 2007, ítarleg samantekt um byggðina innan verndarsvæðisins í greinargerð tillögunnar og greining á núverandi svipmóti svæðisins, sem einnig birtist í greinargerð tillögunnar.

Tillagan ásamt greinargerð og uppdráttum liggur frammi á skrifstofu Blönduósbæjar, Hnjúkabyggð 33, 540 Blönduósi, frá 21. febrúar til og með 4. apríl 2018.

Tillögu, greinargerð og uppdrætti má einnig nálgast hér.

Þeim sem vilja er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til 4. apríl 2018. Senda skal skriflegar athugasemdir til skipulags- og byggingarfulltrúa eða á netfangið byggingafulltrui@blonduos.is

Arnar Þór Sævarsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar


 

Var efnið á síðunni hjálplegt?