Kæru íbúar   

Við erum að ganga í gegnum óvenjulega tíma þessi misserin. Eins og fram hefur komið hefur verði sett á samkomubann sem tók gildi á miðnætti mánudags 16. mars, vegna COVID-19. Þessi póstur og meðfylgjandi upplýsingar munu verða lifandi plagg eftir því hvaða ákvarðanir hafa verið teknar, en leytast er við að fylgja leiðbeiningum stjórnvalda, eftir því sem hægt er. Það er ánægjulegt að finna fyrir þeirri miklu samheldni og einhug sem ríkir hjá okkur öllum um að leysa verkefni næstu vikna af festu, ábyrgð og yfirvegun, og það ber að þakka fyrir.

Ljóst er að starfsemi og þjónusta sveitarfélagsins verður með breyttu sniði næstu fjórar vikurnar. Allt skipulag skólahalds sveitarfélagsins miðast að því að fara í einu og öllu eftir fyrirmælum yfirvalda, en þar er gefið svigrúm fyrir útfærslur á skólahaldi á hverjum stað. Leikskóli og grunnskóli Blönduósbæjar hafa verið með starfsdaga í dag, og munu senda upplýsingar og fyrirmæli til foreldra og forráðamanna, um útfærslur skólahalds næstu daga.  Breytingar á starfsemi sveitarfélagsins geta orðið með stuttum fyrirvara og verða þá tilkynntar á heimasíðu sveitarfélagsins eða beint frá þeim stofnunum eða deildum þess.

Nú fer í hönd tími þar sem við þurfum öll að standa saman og sýna samfélagslega ábyrgð í því hvernig við heftum COVID-19 faraldurinn. Við þurfum að huga sérstaklega að þeim íbúum sem eru veikir fyrir, og leggja okkur fram um að aðstoða þá sem á þurfa að halda.

Gleymum þó ekki brosinu, sýnum umburðarlyndi og verum eins hvetjandi og við getum í þessum fordæmalausu aðstæðum.

Valdimar O Hermannsson,

Sveitarstjóri

 Skjal:

Viðbrögð Blönduósbæjar við Covid 19 veirunni og samkomubanni 16. mars - 16. apríl 

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?