Á morgun, mánudaginn 30. maí klukkan 17:00  fer fram kynning í félagsheimilinu á Blönduósi

á rannsóknaverkefninu og sjálfsævisögunni Bíbí í Berlín.

Boðið verður upp á kaffi og umræður að lokinni kynningu. Bíbíarhópurinn, þau Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við HÍ, Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við HÍ og Sólveig Ólafsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ, hvetur alla til að mæta og ekki síst þau sem muna eftir Bíbí.

Nýverið kom út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar verk sem Bjargey Kristjánsdóttir, sem vanalega gekk undir nafninu Bíbí í Berlín, ritaði. Bíbí var fædd á kotbýlinu Berlín rétt fyrir utan Hofsós árið 1927 og var úrskurðuð fljótlega á fyrsta ári „fáviti“ eins og það var nefnt á fyrri hluta 20. aldar. Eftir lát móður sinnar, þegar Bíbí var um þrítugt, var hún flutt gegn vilja sínum á elliheimilið á Blönduósi. Þar dvaldi hún í tæp 20 ár eða þar til að hún flutti inn í þorpið þar sem hún bjó í skjóli vina um hríð en endaði ævi sína á elliheimilinu þar sem hún lést árið 1999.

Bíbí lét eftir sig 120 þúsund orða sjálfsævisöguhandrit sem hún hafði unnið að mestu í einrúmi, hélt leyndu fyrir fjölskyldu sinni og samferðarfólki og fáir vissu um tilvist þess. Bókin Bíbí í Berlín er með ítarlegum inngangi Guðrúnar en að verkinu standa auk hennar þau Sólveig og Sigurður Gylfi og fengu þau fengu þriggja ára verkefnisstyrk frá Rannís árið 2021 til að rannsaka sögu Bíbíar.

Var efnið á síðunni hjálplegt?