Sveitarstjórn Blönduósbæjar bókaði eftirfarandi á 73. fundi, sem haldinn var 17. desember sl. 

Björgunarfélagið Blanda hefur unnið þrekvirki síðastliðna viku við að aðstoða íbúa og stofnanir sveitarfélagsins sem og í nágrannasveitarfélögum, við mjög erfiðar aðstæður. Félagsmenn björgunarsveita leggja mikið á sig, oft í mjög erfiðum aðstæðum, til þess að tryggja öryggi íbúa. Það á bæði við um beina aðstoð við íbúa og ekki síst aðstoð við Rarik og Landsnet við að koma á rafmagni, sem og Heilbrigðisstofnun Norðurlands við að koma starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum að og frá stofnuninni.

Í þakkarskyni hefur Blönduósbær ákveðið að styrkja Björgunarfélagið Blöndu um eina milljón króna vegna mikils álags síðustu daga og fara þar með að fordæmi Húnaþings vestra sem styrktu Björgunarsveitina Húna á Hvammstanga með sambærilegum hætti.

Blönduósbær skorar jafnframt á önnur sveitarfélög, RARIK, Landsnet, HSN og fleiri að styrkja með beinum hætti björgunarsveitir sem voru þeim innan handar í óveðrinu síðastliðna viku, við mjög erfiðar aðstæður.

Var efnið á síðunni hjálplegt?