166. fundur 30. júní 2020 kl. 17:00 - 18:30 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson formaður
  • Sigurgeir Þór Jónasson aðalmaður
  • Gunnar Tr. Halldórsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Valdimar O. Hermannsson sveitarstjóri
  • Magnús Sigurjónsson ritari
Fundargerð ritaði: Magnús Sigurjónsson Ritari
Dagskrá

1.Blönduskóli - Kennslumagn, aðgengismál og gróðursetning

2006026

Erindi frá Þórhöllu Guðbjartsdóttur skólastjóra Blönduskóla er varðar kennslumagn fyrir skólaárið 2020-2021,aðgengismál við skólann og gróðursetningu á kirkjuhólnum.
Byggðaráð samþykkir umbeðið kennslumagn skólastjóra fyrir skólaárið 2020-2021. Byggðaráð samþykkir að fjarlægja allan trjágróður við hurðina inn í matsalinn og grófjafna snúningsplan samkvæmt minnisblaði sem útfært var á fundinum. Á þann hátt er aðgengi fatlaðra tryggt tímabundið meðan á framkvæmdum við skólann stendur. Verkinu skal lokið fyrir skólasetningu 2020. Byggðaráð samþykkir tillögu um gróðursetningarverkefni Blönduskóla að höfðu samráði við framkvæmdasvið.

2.Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

1908001

Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags.
Fært í trúnaðarbók.

3.Markaðsstofa Norðurlands - Aðgerðir sumarsins

2006019

Erindi frá Markaðsstofu Norðurlands er varðar aðgerðir sumarsins.
Lagt fram til kynningar.

4.Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi - styrkbeiðni

2006024

Styrkbeiðni frá Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi til kaupa á þrekhjóli.
Byggðaráð samþykkir að styrkja verkefnið um 80.000 krónur. Tekið af lið 06899919.

5.Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra - fundargerð og gögn

2006025

Fundargerð og gögn er varðar málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.
Lagt fram til kynningar.

6.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerð 885. fundar stjórnar

2006027

Fundargerð 885. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 12. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

7.Félags- og skólaþjónusta A-Hún fundargerð frá 8.júní 2020

2006018

Fundargerð stjórnar Félags- og skólaþjónustu A-Hún frá 8. júní sl.
Lagt fram til kynningar.

8.Fræðslunefnd Blönduósbæjar - 38

2006004F

  • Fræðslunefnd Blönduósbæjar - 38 Í upphafi fundar bar Anna Margrét Jónsdóttir formaður fræðslunefndar upp eftirfarandi tillögu:
    "Fræðslunefnd vill skýra hlutverk sitt hjá sveitarfélaginu en hefð hefur verið fyrir að fræðslunefnd staðfesti ráðningar í leik- og grunnskóla. Samkvæmt samþykktum Blönduósbæjar fer fræðslunefnd hins vegar eingöngu með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir það falla. Um er að ræða verkefni skólanefndar skv. 6. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og málefni leikskóla samvkæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008. Fræðslunefnd hefur fyrst og fremst faglegt hlutverk varðandi ýmsa þætti er lúta að skólastarfi en hefur ekki ráðningarvald. Fræðslunefnd leggur til að framvegis verði starfsmannamál Blönduskóla og Barnabæjar bókuð sem lögð fram til kynningar."
    Að loknum umræðum um tillöguna var hún borin upp og samþykkt með fimm atkvæðum samhljóða.

    Þórhalla Guðbjartsdóttir skólastjóri Blönduskóla fór yfir starfsmannamál Blönduskóla vegna komandi starfsárs.

    Þuríður Þorláksdóttir aðstoðarskólastjóri hefur fengið ársleyfi næsta skólaár. Staðan var auglýst innanhúss. Anna Margret Sigurðardóttir sótti um og mun hún verða ráðin til afleysingar í eitt ár.

    Aðrar stöður við skólann verða auglýstar á næstu dögum.

    Þórhalla Guðbjartsdóttir, Lilja Jóhanna Árnadóttir og Sigurveig Sigurðardóttir yfirgáfu fundinn klukkan 16:58.
  • Fræðslunefnd Blönduósbæjar - 38 Jóhanna G Jónasdóttir leikskólastjóri Barnabæjar fór yfir starfsmannamál, búið er að ráða inn 2 starfsmenn þar af er einn leikskólakennari. Auglýst verður á næstu dögum eftir fleiri starfsmönnum fyrir næsta skólaár. Þegar hefur verið auglýst eftir deildastjórum og sérkennslustjóra. Ekki er búið að ganga frá ráðningum í þessar stöður en Jóhanna kynnti fyrir nefndinni ákvörðun sína um ráðningu sérkennslustjóra. Engar umsóknir bárust um stöðu deildastjóra.

    Eftir umræður um ákvörðun leikskólastjóra um ráðningu sérkennslustjóra lögðu Atli Einarsson og Rannveig Rós Bjarnadóttir fram eftirfarandi bókun:

    Menntun er ein grundvallarstoða samfélaga og gríðarlega mikilvægt að tryggja góða og faglega mönnun menntastofnana. Á opinberum aðilum hvílir sú lögbundna skylda að ráða hæfasta umsækjanda í störf á þeirra vegum. Ljóst er að við ráðningu í starf sérkennslustjóra Barnabæjar er um hæfa umsækjendur að ræða, og beinist þessi bókun ekki að neinu leyti að persónu þeirra. Fyrir liggur hlutlaust mat á hæfi umsækjenda og er óásættanlegt út frá stjórnsýslulegu og lagalegu sjónarhorni að fara gegn því mati.


    Bókun fundar

    Sveitarstjóri fór ítarlega yfir forsögu málsins er varðar ráðningarferli sérkennslustjóra við leikskólann Barnabæ. Sveitarstjóri vill árétta að í 1.mgr. laga um leikskóla nr. 90/2008 stendur m.a. að um ráðningu leikskólastjóra og starfsfólks leikskóla fari eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga eða samþykktum hafi þær verið settar. Í 56.gr sveitarstjórnarlaga og 52 gr. samþykkta Blönduósbæjar kemur fram að um ráðningu starfsmanna annist sveitarstjóri. Leikskólastjóri steig til hliðar í ráðningarferlinu vegna tengsla. Sveitarstjóri og fræðslustjóri tóku við ráðningarferlinu og mátu annan einstaklinginn hæfari í starfið. Leikskólastjóri fór ekki eftir faglegu mati sveitarstjóra og fræðslustjóra.
    Sveitarstjóri harmar að ekki hafi hæfari metinn einstaklingur verið ráðinn í starfið út frá þeim viðurkenndu mælikvörðum sem notast var við þegar umsækjendur voru metnir.

    Sveitarstjóri tilkynnti byggðaráði ákvörðun sína þess efnis að hann telji sér ekki annað fært en að horfa til þeirrar niðurstöðu sem kom út úr ráðningarferlinu og ráða þann einstakling sem var metinn hæfari til þess að gegna stöðu sérkennslustjóra. Sveitarstjóri rökstyddi ákvörðun sína fyrir byggðaráði og mun tilkynna ákvörðun sína til viðkomandi aðila á næstu dögum.

  • Fræðslunefnd Blönduósbæjar - 38 Jóhanna G Jónasdóttir leikskólastjóri Barnabæjar kynnti skóladagatal Barnabæjar fyrir næsta skólaár, samþykkt samhljóða.

9.Landbúnaðarnefnd Blönduósbæjar - 21

2006006F

  • Landbúnaðarnefnd Blönduósbæjar - 21 Landbúnaðarnefnd leggur til að upprekstur hrossa á Láxárdal verði leyfður frá og með sunnudeginum 21. júní n.k. Óskað er eftir að það verði auglýst á heimasíðu Blönduósbæjar.
  • Landbúnaðarnefnd Blönduósbæjar - 21 Fegnir hafa borist af því að talsvert álag verði greitt á innlagt dilkakjöt fram til 11. september. Umræður hafa orðið í Skagafirði um að smala helgina 5.-6. september, sem er viku fyrr en fjallskilasamþykkt Austur-Húnavatnssýslu gerir ráð fyrir. Landbúnaðarnefnd Blönduósbæjar telur að jákvætt væri að flýta göngum frá því sem fjallskilasamþykktin gerir ráð fyrir, bæði til að bændur geti nýtt álag á sláturverði og til að göngur fari sem mest fram á sama tíma í báðum sýslum. Ræða þarf málið við fjallskilastjórn Skagabyggðar áður en ákvörðun verður tekin. Áréttað er þó að hvað sem fyrri göngum líður, verður stóðsmölun og stóðréttir skv. fjallskilasamþykkt, helgina 19.-20. september.
  • Landbúnaðarnefnd Blönduósbæjar - 21 Samningur við Vigni Björnsson um refaveiði mun gilda áfram í ár.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Var efnið á síðunni hjálplegt?