85. fundur 04. apríl 2017 kl. 17:00 - 19:15 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson formaður
  • Zophonías Ari Lárusson varaformaður
  • Hörður Ríkharðsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Arnar Þór Sævarsson sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Arnar Þór Sævarsson sveitarstjóri Blönduósbæjar
Dagskrá

1.Samband íslenskra sveitarfélaga - fundargerð 24. mars 2017

1703026

Fundargerð Sambands Íslenskra sveitarfélaga lögð fram til kynningar.

2.Jöfnunarsjóður - Tekjustofnun sveitarfélaga

1703025

Byggðaráð Blönduósbæjar mótmælir harðlega fyrirliggjandi frumvarpi sem felur í sér grundvallarbreytingu á starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Boðuð breyting felur ekki í sér jöfnun á tekjum sveitarfélaga og með engu móti er tekið tillit til þess hvort sveitarfélög þurfi að fullnýta tekjustofna. Þá felur frumvarpið í sér fordæmalausa skerðingu á tekjustofnum sveitarfélaga með afturvirkjum hætti. Slíkt orkar tvímælis í ljósi 78. gr. stjórnarskrár þar sem kveðið er á um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum, en brýtur einnig blað varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélög geta þá ekki byggt á gildandi lögum varðandi áætlanir um tekjur þeirra.



3.Umsögn - tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða

1703016

Guðmundur Haukur Jakobsson og Zophonías Ari Lárusson fyrir L-lista samþykkja eftirfarandi bókun:

Þingsályktunartillaga um vernd og orkunýtingu landsvæða er nú lögð fram að nýju af umhverfisráðherra en tillagan var áður lögð fram sem 853. mál á 145. þingi. Var sú þingsályktunartillaga samhljóða lokatillögu verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar.

Byggðaráð Blönduósbæjar vill með umsögn sinni nú benda á að í þeirri þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram fyrir Alþingi er aðeins lagt til að 1 virkjunarkostur á vatnasviði á Norðurlandi vestra verði í orkunýtingarflokki og 1 virkjunarkostur vindorku. Er þar um að ræða annars vegar veituleið Blönduvirkjunar og hins vegar Blöndulund, þar af aðeins um 30 MW í tiltölulega hagkvæmu vatnsafli. Í verndarflokk fara hins vegar 4 virkjunarkostir á vatnasviði á Norðurlandi vestra.

Þingsályktunartillagan horfir með öllu fram hjá þeirri staðreynd að orkuskortur er yfirvofandi víða um land og að virkjanir og dreifikerfi raforku anna ekki eftirspurn víða á landsbyggðinni. Að óbreyttu mun orkuskortur hamla bæði atvinnuuppbyggingu og orkuskiptum, s.s rafbílavæðingu. Þetta hefur raunar þegar átt sér stað á Norðurlandi vestra en áform um iðnaðaruppbyggingu á Hafursstöðum við Húnaflóa strandar á orkuöflun. Umræddur iðnaður myndi skapa á þriðja hundrað beinna starfa og svipaðan fjölda afleiddra starfa og skipta gríðarlegu máli fyrir byggðaþróun á svæðinu öllu enda Hafursstaðir af mörgum orsökum einkar heppilegur staðar, m.a. hvað varðar atvinnusókn og samgöngur af öllu Norðurlandi vestra.

Um langt skeið hefur jafnframt verið unnið að annarri atvinnuuppbyggingu í bæði Skagafirði og Húnavatnssýslum og má þar t.d. nefna gagnaversiðnað. Öll eiga þessi verkefni það sammerkt að krefjast tryggrar raforkuframleiðslu og orkuafhendingar.

Áréttað skal hér að Alþingi hefur áður samþykkt þingsályktun um átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu, með nýtingu raforku sem framleidd er í Blönduvirkjun, til að spyrna gegn byggðaröskun og fólksfækkun sem vart á sér hliðastæður hér á landi hin síðari ár.

Byggðaráð Blönduósbæjar fer því fram á að Alþingi breyti framkominni þingsályktunartillögu á þann veg að Skagafjarðarvirkjanir fari í biðflokk rammaáætlunar og verði þar með rannsakaðar til fulls, sem aftur verði grundvöllur ákvarðanatöku síðar meir um hvort þessi kostir verði hagnýttir til orkuöflunar eða þeir látnir njóta verndar.





4.Atvinnumál

1605006

Um nokkurt skeið hefur staðið athugun á möguleikum þess að byggja hótel við Félagsheimilið á Blönduósi samkvæmt samningi sem gerður var við aðila þann 25. nóvember sl. og höfðu þeir frumkvæði að því. Staða málsins er með þeim hætti að enn hefur ekki tekist að ljúka fjármögnun endanlega en áfram er unnið að verkefninu.



Varðandi Arctic Coast Way verkefnið er Blönduósbær nú þátttakandi í gegnum Bs. um menningu og atvinnumál.



Rætt var um áður framkomnar hugmyndir um byggingu fjölbýlishúss á Blönduósi. Sveitarstjóra falið að kanna hvernig þau áform standa.



Rætt var um fyrirtækjaheimsóknir byggðaráðs Blönduósbæjar. Byggðaráð stefnir á að heimsækja fyrirtæki á Blönduósi þar sem m.a. nokkrir nýir rekstraraðilar hafa hafið rekstur á Blönduósi á umliðnum misserum.

Fundi slitið - kl. 19:15.

Var efnið á síðunni hjálplegt?