Átakið Hjólað í vinnuna hefst á morgun 6. maí og stendur yfir til 26. maí. Fyrirtæki og stofnanir geta skráð vinnustaðinn til leiks og hvatt þannig allt starfsfólk til að vera með þrátt fyrir að fólk vinni jafnvel heiman frá sér á þessum fordæmalausu tímum. 

Hjólað í vinnuna er verkefni sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur staðið fyrir árlega frá árinu 2003. Útfærslan á átakinu er einföld. Fólk gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að byrja eða enda vinnudaginn á því að ganga eða hjóla til og frá vinnu. Tilgangur verkefnisins er að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum og er megin markmið verkefnisins að vekja athygli á heilsusamlegum og umhverfisvænum ferðamáta eins og að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur. Hægt er að skrá sig til leiks á www.hjoladivinnuna.is, en hægt er að skrá sig til leiks á meðan keppni stendur yfir.

Var efnið á síðunni hjálplegt?