Sveitarstjórn Blönduósbæjar bókaði eftirfarandi á 73. fundi, sem haldinn var 17. desember sl. 

Sveitarstjórn Blönduósbæjar tekur heilshugar undir bókanir frá nágrannasveitarfélögum, þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum yfir því að fjölmargir innviðir samfélagsins hafi brugðist í því veðuráhlaupi sem gekk yfir landið í síðustu viku, sérstaklega er varðar raforkuöryggi, fjarskipti, mönnun og undirbúning grunnstofnana samfélagsins, en í bókun Húnaþings vestra segir m.a.:

"Það er algjörlega óviðunandi að grunnstofnanir samfélagsins, RARIK, Landsnet og fjarskiptafyrirtækin hafi ekki verið betur undirbúin og mönnuð á svæðinu en raun ber vitni. Aftur á móti voru Björgunarsveitirnar og Rauði krossinn, sem rekin eru í sjálfboðavinnu, vel undirbúin og komin með tæki og fólk á staðinn áður en veðrið skall á".
Sveitarstjórn hvetur ríkisstjórn Íslands og önnur stjórnvöld til þess að tryggja það að Landsneti verði kleift að byggja upp og viðhalda meginflutningskerfi raforku um landið. Einnig að RARIK viðhaldi ásættanlegri mönnun og aðbúnaði, á starfsstöðvum sínum á svæðinu, í stað þess að draga svo mikið saman að ekki sé mögulegt að sinna nauðsynlegri þjónustu í landshlutanum.

Var efnið á síðunni hjálplegt?