Opnaður hefur verið upplýsingavefur um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Á honum má finna fréttir og tilkynningar, fundargerðir, minnisblöð og aðrar upplýsingar sem tengjast mögulegri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra sem eru; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Vefslóðin er: sameining.huni.is.

Upplýsingavefurinn er samstarfsverkefni Húnahornsins, sameiningarnefndar A-Hún. og Ráðrík ráðgjafa. Hann er í umsjón og á ábyrgð Húnahornsins – fréttavefs Húnvetninga í 17 ár. Upplýsingar sem á vefinn koma eru frá sameiningarnefndinni og Ráðrík ráðgjöfum. Aðra almenna textavinnslu sér Húnahornið um.

Opnir fundir á sex stöðum eftir páska
Svanfríður Jónasdóttir hjá Ráðrík ráðgjöf segir upplýsingavefinn mjög mikilvægan til þess að allir geti fylgst með og kynnt sér þá vinnu sem er í gangi í tengslum við framtíðarskipan sveitarstjórnarmála í A-Hún. Hún segir mikilvægt að sem flestir hafi tök á að kynna sér sameiningarmálefnin, geti rætt málin og komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Í undirbúningi er að halda opna fundi á sex stöðum í sýslunni strax eftir páska. „Þeir verða opnir öllum íbúum, þ.e.a.s. þú þarft ekki að mæta á fundinn sem er næstur þínu heimili, heldur getur sótt hvaða fund sem er til að taka þátt í umræðu um framtíðarskipan sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu,“ segir Svanfríður.

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?